Forskóli

Forskólanám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar er fyrir 6 – 8 ára börn og spannar tvö ár. Námið er metið í símati með tilliti til hæfniviðmiða Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Fyrra ár

Fyrra ár forskólanema er hefðbundið og inniheldur hlustun, hrynlestur, söng, nótnaþjálfun og blokkflautunám. Forskólakennari skipuleggur hvernig þessu þáttum er blandað saman í náminu og einnig er kennt eftir bókinni Tuttugu töffarar

Námið er tvisvar í viku, 40 mínútur í senn. Kennslan fer fram úti í grunnskólum eins og mögulegt er, annars fara tímar fram í Tónlistarskólanum, Strandgötu 51.

Seinna ár

Á seinna ári forskólanema er kennt eftir finnsku módeli sem byggir á blásarafornámi. Námið er þannig byggt upp að í skólabyrjun fá nemendur blásturshljóðfæri afhent, til dæmis trompet, horn, básúnu eða klarinett, en þau eru minni og léttari en hefðbundin hljóðfæri.

Kennslan fer fram úti í grunnskólum bæjarins og er kennt á sama hljóðfærið í hverjum grunnskóla (til dæmis er í einum skóla bara kennt á trompet og í öðrum bara þverflautu). Hver nemandi fær 20 mínútna einkatíma einu sinni í viku og 30 mínútna hóptíma með hinum nemendunum (5 í hóp). Eftir veturinn fá nemendur að velja sér hljóðfæri eftir því sem þau vilja. Foreldrar og forsjáraðilar barnanna eru hvattir til að styðja við heima fyrir börnin þessi fyrstu skref þeirra í tónlistarnáminu.