Söngnám

Í söngnámi er röddin sjálf hljóðfærið. Hún er hluti af líkamanum og því einstök fyrir hvern einstakling og byggist mikið á heyrninni okkar. Í söngnáminu fást nemendur líka við túlkun á texta og framburð mismunandi tungumála.

Nemendur byrja yfirleitt seinna í söngnámi en í öðru tónlistarnámi og því misjafnt hvernig þekkingin á tónlist er þegar þeir hefja söngnám. Sumir hafa lært á hljóðfæri í mörg ár eða sungið í kórum meðan aðrir hafa ekki stundað tónlistarnám áður en þeir byrja að læra söng.

Klassískt söngnám

Markmið klassíska söngnámsins er að kenna nemendum heilbrigða raddbeitingu, túlkun og framkomu. Námið skiptist í þrjú stig: grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Námið er einstaklingsmiðað og því misjafnt hversu lengi nemendur eru á hverju stigi. Reikna má með að nemendur séu um 2 – 3 ár að meðaltali að ljúka hverju stigi.

Nemendur fá einkakennslu í söng klukkutíma á viku. Auk þess sækja nemendur tíma í undirleik, samsöng, tónfræði og tónheyrn. Nemendur þjálfast í að syngja með öðrum og að vera leiðandi í tónlistarflutningi.

Áhersla er lögð á að nemendur þjálfi sjálfstæð vinnubrögð og tileinki sér árangursríka námstækni. Nemendur fá tækifæri til að syngja á tónleikum og taka þátt í uppfærslum innan skólans og fá þannig þjálfun í sviðsframkomu og færni í að syngja fyrir áheyrendur.

Rytmískt söngnám

Markmið rytmíska söngnámsins er að kenna nemendum heilbrigða raddbeitingu, túlkun, framkomu og míkrófóntækni. Nám í rytmískum söng skiptist í þrjú stig: grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Námið er einstaklingsmiðað og er því misjafnt hversu lengi nemendur eru á hverju stigi en reikna má með að nemendur séu um 2–3 ár að meðaltali að ljúka hverju stigi.

Nemendur fá einkakennslu í söng klukkutíma á viku. Auk þess sækja nemendur tíma í undirleik, samsöng, tónfræði og tónheyrn. Spuni er stór þáttur í rytmísku söngnámi og þjálfast nemendur í þeirri tækni. Nemendur þjálfast í að syngja með öðrum og að vera leiðandi í tónlistarflutningi.

Áhersla er lögð á að nemendur þjálfi sjálfstæð vinnubrögð og tileinki sér árangursríka námstækni. Nemendur fá tækifæri til að syngja með rytmískum hljómsveitum, taka þátt í uppfærslum innan skólans og fá þannig þjálfun í sviðsframkomu og færni í að syngja fyrir áheyrendur.