Söngnám

Í söngnámi er röddin sjálf hljóðfærið. Hún er hluti af líkamanum og því einstök fyrir hvern einstakling og byggist mikið á heyrninni okkar. Í söngnáminu fást nemendur líka við túlkun á texta og framburð mismunandi tungumála.

Nemendur byrja yfirleitt seinna í söngnámi en í öðru tónlistarnámi og því misjafnt hvernig þekkingin á tónlist er þegar þeir hefja söngnám. Sumir hafa lært á hljóðfæri í mörg ár eða sungið í kórum meðan aðrir hafa ekki stundað tónlistarnám áður en þeir byrja að læra söng.

Undirbúningsdeild
(9–12 ára og 13–16 ára)

Í undirbúningsdeildinni fá ungir söngnemendur traustan grunn í raddtækni og beitingu raddarinnar. Þeir eru kynntir fyrir ýmsum stíltegundum tónlistar og fá að spreyta sig á margs konar tónlist. Nemendur fræðast um tónlist og flytjendur og vinna verkefni til að auka enn frekar við eigin þekkingaröflun.

Nemendur fá söngkennslu í tveggja til þriggja manna hópum. Meðleikur verður í boði til að þjálfa söngnemendur í samspili og fá þeir tækifæri til að koma fram og æfa sviðsframkomu í öruggu umhverfi. Auk söngkennslu og meðleiks sækja nemendur einnig vikulega tónfræðitíma og samsöngstíma.

Söngnám Tónlistaskóla Hafnarfjarðar

Klassískt söngnám

Markmið klassíska söngnámsins er að kenna nemendum heilbrigða raddbeitingu, túlkun og framkomu. Námið skiptist í þrjú stig: grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Námið er einstaklingsmiðað og því misjafnt hversu lengi nemendur eru á hverju stigi. Reikna má með að nemendur séu um 2 – 3 ár að meðaltali að ljúka hverju stigi.

Nemendur fá einkakennslu í söng klukkutíma á viku. Auk þess sækja nemendur tíma í undirleik, samsöng, tónfræði og tónheyrn. Nemendur þjálfast í að syngja með öðrum og að vera leiðandi í tónlistarflutningi.

Áhersla er lögð á að nemendur þjálfi sjálfstæð vinnubrögð og tileinki sér árangursríka námstækni. Nemendur fá tækifæri til að syngja á tónleikum og taka þátt í uppfærslum innan skólans og fá þannig þjálfun í sviðsframkomu og færni í að syngja fyrir áheyrendur.

Rytmískt söngnám

Markmið rytmíska söngnámsins er að kenna nemendum heilbrigða raddbeitingu, túlkun, framkomu og míkrófóntækni. Nám í rytmískum söng skiptist í þrjú stig: grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Námið er einstaklingsmiðað og er því misjafnt hversu lengi nemendur eru á hverju stigi en reikna má með að nemendur séu um 2–3 ár að meðaltali að ljúka hverju stigi.

Nemendur fá einkakennslu í söng klukkutíma á viku. Auk þess sækja nemendur tíma í undirleik, samsöng, tónfræði og tónheyrn. Spuni er stór þáttur í rytmísku söngnámi og þjálfast nemendur í þeirri tækni. Nemendur þjálfast í að syngja með öðrum og að vera leiðandi í tónlistarflutningi.

Áhersla er lögð á að nemendur þjálfi sjálfstæð vinnubrögð og tileinki sér árangursríka námstækni. Nemendur fá tækifæri til að syngja með rytmískum hljómsveitum, taka þátt í uppfærslum innan skólans og fá þannig þjálfun í sviðsframkomu og færni í að syngja fyrir áheyrendur.